Hungurvaka:
Smelltu hér til að hlaða
niður broti úr bókinni.
Að föður sínum látnum þarf Ragnar Helgi að fara í gegnum 4000 titla bókasafn föður síns og finna því stað á 21. öldinni. Þótt hann einsetji sér í upphafi að opna ekki bækurnar og alls ekki fara að grúska, fær hann ekki við það ráðið.
Við starfann kvikna minningar, hugleiðingar um bækur, menninguna, missi, fallvelti hluta, um liðna tíð og framtíðina – en ekki síður um samband föður og sonar og hvað skipti mestu máli í lífinu þegar upp er staðið.
Bókasafn föður míns er falleg, fyndin, tregafull og íhugul frásögn um verðmætamat og tilfinningalíf sem í krafti stílgaldurs og einlægni hefur djúp áhrif á lesandann. Síðasta bók Ragnars Helga, Handbók um minni og gleymsku, vakti mikla athygli og var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV.
Bókasafn föður míns – Sálumessa (samtíningur) eftir Ragnar Helgi Ólafsson er 200 blaðsíður, innbundin. Útgefandi er Bjartur. Útgáfudagur: 15. nóvember 2018.
„Eiginlega helgirit handa bókafólki. Hér er hjarta bókamannsins krufið af einstakri hlýju og skilningi.“
– Silja Aðalsteinsdóttir
„Einstaklega áhrifarík, persónuleg
og full af húmor. Langt síðan ég
hef lesið jafn góða bók.“
– Stefán Baldursson
„Þessi bók er nýstárleg í forminu. Hef aldrei lesið svona bók áður: full af fegurð, rugli, söknuði, dauða og upprisu. Sálumessa um bókarformið og föður skáldsins. Sæluhrollur og angurværð.“
– Ragnar Kjartansson
Ragnar Helgi Ólafsson er menntaður í heimspeki, myndlist og ritlist og hefur jafnhliða ritstörfum um árabil starfað að sjónlistum. Þriðja bók Ragnars Helga, ljóðabókin Til hughreystingar þeim sem finna sig ekki í samtíma sínum hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar haustið 2015. Áður höfðu komið út skáldsagan Bréf frá Bútan (2013) og smásagnasafnið Fundur útvarpsráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kynverund drengsins og fleiri sögur (2015). Í fyrra fylgdi síðan Handbók um minni og gleymsku sem var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Ragnar Helgi býr og starfar í Reykjavík.