Að föður sínum látnum þarf Ragnar Helgi að fara í gegnum 4000 titla bókasafn föður síns og finna því stað á 21. öldinni. Þótt hann einsetji sér í upp­hafi að opna ekki bækurnar og alls ekki fara að grúska, fær hann ekki við það ráðið.

Við starfann kvikna minningar, hugleið­ingar um bækur, menninguna, missi, fallvelti hluta, um liðna tíð og framtíðina – en ekki síður um samband föður og sonar og hvað skipti mestu máli í lífinu þegar upp er staðið. 

Bókasafn föður míns er falleg, fyndin, tregafull og íhugul frásögn um verð­­mætamat og tilfinningalíf sem í krafti stíl­galdurs og einlægni hefur djúp áhrif á lesandann. Síðasta bók Ragnars Helga, Hand­bók um minni og gleymsku, vakti mikla athygli og var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV.

Bókasafn föður míns – Sálumessa (samtíningur) eftir Ragnar Helgi Ólafsson er 200 blaðsíður, innbundin. Útgefandi er Bjartur. Útgáfudagur: 15. nóvember 2018.

UMSAGNIR

„Eiginlega helgirit handa bókafólki. Hér er hjarta bókamannsins krufið af einstakri hlýju og skilningi.“

– Silja Aðalsteinsdóttir

„Einstaklega áhrifarík, persónuleg og full af húmor. Langt síðan ég hef lesið jafn góða bók.“
– Stefán Baldursson

„Þessi bók er nýstárleg í forminu. Hef aldrei lesið svona bók áður: full af fegurð, rugli, söknuði, dauða og upp­­risu. Sálumessa um bókar­formið og föður skáldsins. Sæluhrollur og angurværð.“
– Ragnar Kjartansson

UM HÖFUNDINN

Ragnar Helgi Ólafsson er mennt­aður í heim­­s­peki, mynd­­list og ritlist og hefur jafn­hliða rit­­störf­­um um ára­bil starfað að sjónlistum. Þriðja bók Ragnars Helga, ljóða­bókin Til hug­­hreyst­ingar þeim sem finna sig ekki í sam­tíma sínum hlaut Bók­mennta­verð­laun Tómasar Guð­munds­­sonar haust­ið 2015. Áður höfðu komið út skáld­sagan Bréf frá Bútan (2013) og smá­­sagna­safnið Fundur útvarps­ráðs þann 14. mars 1984 og áhrif hans á kyn­ver­und drengsins og fleiri sögur (2015). Í fyrra fylgdi síðan Handbók um minni og gleymsku sem var tilnefnd til bæði Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Menningarverðlauna DV. Ragnar Helgi býr og starfar í Reykja­vík.

 

 

Top